Hagnaður Sjóvár árið 2012 nam 2.057 milljónum króna en var 642 milljónir árið 2011. Í tilkynningu kemur fram að eigin iðgjöld félagsins jukust um 4,4% á árinu og námu 11,5 milljörðum króna í fyrra. Fjárfestingartekjur minnkuðu milli ára, voru 2.909 milljónir árið 2011 en 2.530 milljónir í fyrra. Heildartekjur félagsins stóðu nær í stað, hækkuðu úr 14.136 milljónum árið 2011 í 14.266 milljónir í fyrra.

Í tilkynningunni segir að eignasafn Sjóvár sé mjög traust og að það eigi ríkisskuldabréf til að mæta eigin tjónaskuld og ríkisskuldabréf og bankainnstæður til að mæta eigin vátryggingaskuld. Samtals nema verðbréfaeign og laust fé félagsins 30,5 milljörðum króna en skuldir félagsins eru 23,2 milljarðar

Samsett hlutfall félagsins var 94,5% samanborið við 96,6% árið áður og tjónshlutfallið á árinu var 64,2% samanborið við 67,5% árið 2011. Heildareignir voru 40,3 milljarðar í árslok 2012, en voru 37,6 milljarðar ári fyrr. Eigið fé félagsins nam tæpum fimmtán milljörðum króna um síðustu áramót, en nam 12,9 milljörðum ári fyrr og eiginfjárhlutfallið hækkaði því úr 34,4% í 37,2%.