Hagvöxtur í Bandaríkjunum nam 2,3% á ársmælikvarða á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum hagstofunnar þar vestanhafs. Er það nokkuð undir væntingum hagfræðinga sem gerðu ráð fyrir 2,7% vexti á tímabilinu. Hins vegar tilkynnti hagstofan einnig að hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi hefði numið 0,6% en ekki 0,2% eins og fyrri tölur gáfu til kynna.

Tölurnar eru hins vegar í nokkru samræmi við það sem hefur viðgengist í Bandaríkjunum síðustu ár, þar sem vöxturinn er hægur fyrri hluta ársins en tekur svo við sér síðari hlutann. Slíkt var uppi á teningnum á síðasta ári, en þá var hörðum vetri kennt um hinn hæga vöxt í upphafi ársins. Á þessu ári er hins vegar ýmislegt annað sem spilar inn í, s.s. sterkur dollari og hægur vöxtur í einkaneyslu og nýfjárfestingu.