Hagnaður Hampiðjunnar á síðasta ári nam 7,7 milljónum evra, andvirði um 1,1 milljarðs króna, en var 7,6 milljónir evra árið á undan. Tekjur jukust úr 50,4 milljónum evra árið 2013 í 54 milljónir evra í fyrra, en rekstrarhagnaður minnkaði lítillega milli ára.

Kostnaður við uppgjör við forstjóra félagsins, Jóns Guðmanns Péturssonar, vegna starfsloka hans, þ.e. bónusar, starfslokagreiðslur og tengd gjöld, námu 1,6 milljónum evra og dróst rekstrarhagnaður fyrirtækisins því saman milli ára, var 5,9 milljónir evra árið 2013, en 5,6 milljónir í fyrra. Jón Guðmann hætti sem forstjóri í maí í fyrra og tók Hjörtur Erlendsson við starfinu.

Hrein fjármagnsgjöld voru töluvert lægri í fyrra en árið 2013, lækkuðu úr rúmum milljarði í 258 milljónir króna og var hagnaður fyrir skatta 8,5 milljónir evra í fyrra, en var 8,1 milljón árið á undan.

Efnahagurinn er 14,7 milljarðar, skuldir 5,0 milljarðar og eigið fé 9,7 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var því 65,8% um síðustu áramót.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 326 milljónir króna.