Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar grein í Wall Street Journal í dag, þar sem hann kemur íslensku efnahagslífi til varnar. Fyrirsögnin er „Ísland er ekki að bráðna“ og fjallar Hannes um stöðu þjóðarbúsins, sem hann segir vera betri en margir hafi áhyggjur af.

Hannes bendir á að viðskiptahalli hafi minnkað mikið á síðasta ári og þótt skuldir einkageirans séu 120% af vergri þjóðarframleiðslu séu skuldir hins opinbera nærri því engar. Hann segir að ekki sé rétt að líta á Ísland sem „áhættuland“; ekki sé við hæfi að líta aðeins á vænt framtíðarvirði þeirra fjárfestinga einkageirans sem fjármagnaðar hafi verið með fyrrnefndri skuldsetningu, heldur einnig á hið nýja fjármagn sem skapað hafi verið á Íslandi undanfarin ár. Þar hafi kvótakerfið leikið stórt hlutverk, einkavæðing bankanna og sterkt lífeyriskerfi. Þetta fjármagn, frekar en óábyrgar lántökur, hafi gert Íslandi kleift að leika stærra hlutverk í alþjóðlegu fjármálalífi en stærð þjóðarinnar gefi að öllu jöfnu tilefni til að ætla.