Allt hlutafé Bílaleigu Flugleiða ehf. hefur verið selt til félags í jafnri eigu Sigfúsar R. Sigfússonar, Sigfúsar B. Sigfússonar, Hendriks Berndsen og Sigurðar Berndsen. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist söluna að því er kemur fram í tilkynningu.

Þar kemur fram að fyrrnefndir kaupendur þekkja vel til rekstur bílaleigu en þrír þeirra síðasttöldu áttu og ráku ALP bílaleigu á árunum 2000-2004. Sigfús R. Sigfússon var um árabil eigandi og forstjóri bifreiðaumboðsins Heklu hf.

Nýr eigandi tók formlega við rekstri félagsins 1.mars og hyggst reka það áfram með óbreyttu sniði. Hann hefur verið samþykktur af Hertz International og hefur einn leyfi til að nota og markaðssetja vörumerkið Hertz á Íslandi.

Í tilkynningu kemur fram að söluferlið hófst formlega með birtingu auglýsingar í fjölmiðlum föstudaginn 22. janúar og var opið öllum fjárfestum sem sýnt gátu fram á eiginfjárstöðu umfram 500 milljónir króna og fengju samþykki Hertz International. Þrettán hópar fjárfesta sýndu fyrirtækinu áhuga í upphafi, 9 þeirra var boðin áframhaldandi þátttaka og 4 hópum að lokum boðið að gera bindandi tilboð. Kaupverð er trúnaðarmál.

Salan fór fram að undangenginni fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins.

Bílaleiga Flugleiða ehf. (Hertz á Íslandi) er ein af stærstu bílaleigum landsins. Fyrirtækið rekur 9 starfsstöðvar um allt land og ræður yfir 1000 bifreiðum yfir háannatímann. Í dag starfa 45 manns hjá félaginu en yfir sumarið er starfsmannafjöldi á bilinu 70-80 manns.

Hertz International er stærsta bílaleiga heims með starfsemi í 145 löndum og 7.700 starfsstöðvar. Hertz vörumerkið er jafnframt eitt af þekktustu vörumerkjum heims.