Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag – að Danmörku og Svíðþjóð undanskildum - en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,4% í dag og hefur því hækkað um 1,3% á ágúst, sem er þó aðeins annar mánuðurinn á þessu ári sem hún hækkar.

Breski fasteignabankinn HBOS hækkaði um 3,3% í dag eftir að fjölmiðlar greindu frá því að bankinn myndi á næstunni losa sig við starfssemi sína í Ástralíu, að því er Reuters greinir frá.

Annars hækkuðu Barclays  um 1%, Royal Bank of Scotland um 3,5% og BNP Paribas um 3% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,6%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,4% en í Frankfurt stóð DAX vísitalan í stað.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,5% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,7%.

Eins og fyrr segir lækkuðu hlutabréf á Norðurlöndunum, að Noregi undanskildum. Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,1%, í Svíþjóð lækkaði OMXS vísitalan um 0,5% en í Osló hækkaði OBX vísitalan hins vegar um 0,5%.