Fjárfestar virðast taka vel í formlega beiðni portúgalskra stjórnvalda eftir fjárhagsaðstoð, ef marka má hækkun hlutabréfaverðs í bönkum þar í landi. Fjármálastofnanir hækkuðu um yfir 5% strax við opnun markaða. Financial Times greinir frá í dag.

Haft er eftir sérfræðingi í málefnum Portúgals að beiðnin um aðstoð færi miðpunktinn frá lausafjárstöðu bankanna og að hagnaði þeirra og eiginfjárstöðu.

Jose Sócrates, sem stýrir bráðabirgðastjórn landsins, tilkynnti um beiðni landsins í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi. Málefni Portúgals verða tekin fyrir á fundi fjármálaráðherra ESB í dag. Þá er gert ráð fyrir að Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans, fjalli um stöðu landsins í ræðu sinni á kynningarfundi vaxtaákvörðunar bankans í dag.

Portúgal er þriðja ríkið sem leitar í björgunarsjóð Evrópusambandsins. Áður hafa Grikkland og Írland þurft að sækja fé í sjóðinn.