Digido hefur ráðið til sín Hrafnhildi Kristinsdóttur í stöðu sérfræðings á sviði birtinga. Í tilkynningu kemur fram að Hrafnhildur muni fást við ráðgjöf, gerð birtingaáætlana og gagnagreiningu.

Digido er gagnadrifin markaðsstofa sem hefur starfað með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins við ráðgjöf og umsjón um markaðs- og birtingamál. Með ráðningunni rennir Digido enn styrkari stoðum undir ört vaxandi starfsemi sína í birtingum á innlendum miðlum, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Áður starfaði Hrafnhildur sem viðskiptastjóri hjá Já þar sem hún var meðal annars ábyrg fyrir auglýsingabirtingum á miðlum já.is ásamt því að sinna auglýsingasölu og ráðgjöf. Hrafnhildur er með mastersgráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún er einnig með B.A. gráðu í ensku.

Meðal samstarfsaðila Digido eru Icelandair, Arion banki, Síminn, Domino's og Origo auk fjölda annarra. Tíu sérfræðingar starfa hjá fyrirtækinu við markaðs- og auglýsingaráðgjöf með áherslu á stafræna markaðssetningu byggða á gögnum.

Aðspurð kveðst Hrafnhildur spennt fyrir komandi tímum.

„Ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru með samstarfsaðilum okkar og ekki síður að vinna með Digido fjölskyldunni sem býr yfir gífurlegri sérþekkingu á öllum sviðum markaðsmála. Það liggja mörg spennandi tækifæri í gagnadrifinni markaðssetningu og á það ekki síst við um stafrænar birtingar.“

Arnar Gísli Hinriksson, annar stofnenda Digido segir ráðningu Hrafnhildar undirstrika metnað fyrirtækisins.

„Sérþekking Hrafnhildar og reynsla á sviði stafrænna birtinga er verðmæt viðbót við þegar öflugt teymi. Hjá okkur starfa sérfræðingar sem nýta sér nýjustu tæknilausnir til að greina virkni auglýsinga með hætti sem áður hefur ekki verið í boði hér á landi. Þannig hjálpum við samstarfsaðilum okkar að ná meiri sýnileika samhliða auknum sparnaði.
Það sem greinir Digido frá samkeppninni enn fremur er að við þiggjum ekki þjónustulaun frá miðlum fyrir birtingar. Við teljum markaðinn með birtingar á Íslandi ógagnsæjan og viljum vera leiðandi í því að móta sanngjarnara kerfi sem byggir á þóknun fyrir vinnu og auknum afsláttarkjörum til handa okkar samstarfsaðila.“