Veitingastaðurinn Humarhöfnin hefur nú verið settur á sölu. Humarhöfnin er staðsett á bryggjusvæðinu á Höfn í Hornafirði, en samkvæmt upplýsingum á veitingageirinn.is hefur staðurinn 160 milljónir í tekjur á ári af 22.000 gestum. Veitingastaðurinn opnaði árið 2008 og hefur hlotið lof og góðar einkunnir á Tripadvisor.

„Humarhöfnin er sérhæfður veitingastaður með aðaláherslu á hráefni úr héraði það sem aðal áherslan er lögð á humarinn," segir um veitingastaðinn á fasteignasíðu Vísis. Þar kemur einnig fram að allt að 150 manns geti fengið sæti á staðnum, þar af 40 utandyra.

Þá hefur sveitarfélagið úthlutað veitingastaðnum lóð sem veitir aukna möguleika til stækkunar. Eigendur leita nú eftir tilboðum í félagið.