Íslandsbanki býður nú 100% lán til húsnæðiskaupa. Lánin eru veitt til allt að 40 ára og nemur veðsetningarhlutfall allt að 100% af markaðsvirði. Húsnæðiskaupendum bjóðast lán sem eru hærri brunabótamati, en geta keypt viðbótar brunatryggingu á hagstæðum kjörum. Sala á 100% húsnæðislánum hefst í útibúum Íslandsbanka mánudaginn 8. nóvember.

Í tilkynningu bankans segir að Íslandsbanki hafi riðið á vaðið með óverðtryggð húsnæðislán á samkeppnishæfum kjörum við Íbúðalánasjóð í janúar 2004 og má segja að það hafi hleypt lífi í samkeppni fjármálastofnana á húsnæðislánamarkaði. Íslandsbanki hefur tekið fullan þátt í þeirri samkeppni og veitt 3000 húsnæðislán frá því í ársbyrjun 2004.

Nú býður Íslandsbanki 100% húsnæðislán, sem standa öllum til boða sem eru að kaupa fasteign. Þau henta sérstaklega vel ungu fólki sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Verð íbúðarhúsnæðis hefur nær tvöfaldast á sjö árum og er hækkunin umfram almennar launahækkanir á tímabilinu. Það bil hefur því vaxið sem ungt fólk þarf að brúa til að fjármagna sín fyrstu íbúðakaup, en það er sá hópur sem má síst við því að fjármagna sig með óhagstæðum lánum.

Í nýrri könnun Gallup (25-40 ára) kemur fram að 88% þeirra sem leigja eða búa í foreldrahúsum hafa áhuga á að eignast eigið húsnæði, 70% segja erfitt að fjármagna það sem upp á vantar eftir íbúðarlánin og 58,3% segja líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu kaupa eigið húsnæði ef byðust 100% lán.

Fjölbreytt úrval 100% húsnæðislána

100% húsnæðislán Íslandsbanka eru til 5-40 ára og er lánað fyrir öllu kaupverðinu, að hámarki 25 milljónir. Húsnæðiskaupendur hafa val um mismunandi tegundir lána.

Í fyrsta lagi verðtryggð lán með 4,2% vöxtum. Þau eru til 5 til 40 ára og með 5 ára endurskoðunarákvæði vaxta. Lántakendur eiga því ekki á hættu að lokast inni með lán á hærri vöxtum ef raunvextir fara áfram lækkandi hérlendis til móts við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Í öðru lagi óverðtryggð lán í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum og í þriðja lagi óverðtryggð blönduð lán, 50% í íslenskri krónu og 50% í erlendri mynt, með breytilegum vöxtum

Ekki er lengur miðað við brunabótamat þegar veitt eru 100% húsnæðislán. Lántakanda er skylt að tryggja sig gegn altjóni af völdum bruna. Ef brunabótamat er lægra en áætlaður endurreisnarkostnaður húss býðst viðbótar brunatrygging á hagstæðum kjörum.

Skilyrði að ganga í vildarþjónustu Íslandsbanka

Skilyrði fyrir því að húsnæðiskaupendur fái 100% húsnæðislán hjá Íslandsbanka eru að þeir gangi í Vild eða Gullvild hjá Íslandsbanka eða Stofn hjá Sjóvá-Almennum. Þeir þurfa að standast greiðslumat Íslandsbanka og þurfa einnig lánatryggingu, sem býðst á hagstæðum kjörum. Ef lántaki fellur frá greiðist vátryggingarfjárhæðin til bankans, til uppgreiðslu eða til innborgunar á eftirstöðvar lánsins segir í tilkynningu bankans.