„Kjarasamningar í lausu lofti hafa tekið á. Við þurfum að sjá breytingu á þessu,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Kjarasamningar við flugmenn, sem renna út í lok þessa mánaðar skapa óvissu í rekstri félagsins. Björgólfur telur að langvarandi lausn sé til hags bóta fyrir báða samningsaðila.

Verkfallsaðgerðir í vor og sumar kostuðu félagið að minnsta kosti 3,5 milljónir Bandaríkjadala á yfir­ standandi ári, en samningar hafa náðst við flugvirkja til 31. ágúst 2017 og flugfreyjur til 31. ágúst 2015.

„Staðan er einfaldlega þannig að það eru samningar í gildi við alla og engin verkföll eða vinnustöðvanir boðaðar,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair Group. Í þetta skiptið verður þó að hafa í huga að samningar við flugmenn renna út á lágannatíma hjá flugfélaginu og því má ætla að samningsstaða félagsins sé sterkari en hún var fyrr á árinu, að minnsta kosti fram á næsta vor. Engu að síður telur Björgólfur að þessi óvissuþáttur sé óviðunandi í rekstri félagsins, bæði fyrir félagið sjálft en ekki síður fyrir flugmenn.

Fjallað er ítarlega um rekstur Icelandair Group í blaðinu Úr Kauphöllinni, sem kom út með Viðskiptablaðinu í dag. Þar er fjallað um uppgjör skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni á fyrri hluta ársins og síðasta uppgjör í ítarlegu máli. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .