Forsetakosningar eru haldnar í Rússlandi í dag en talið er öruggt að Dmitri Medvedev verði kjörinn næsti forseti. Reuters fréttastofan greinir frá því að Medvedev fái samkvæmt skoðanakönnunum um 80% atkvæða en mikil kosningaþátttaka hefur verið það sem af er degi í landinu.

Medvedev er aðstoðarforsætisráðherra í stjórn Putins fráfarandi forseta en einnig stjórnarformaður olíu- og gasrisans Gazprom.

Um 109 milljón Rússa eru á kjörskrá en síðustu kjörstöðum verður lokað kl. 18 að íslenskum tíma í kvöld. Á erlendum fjölmiðlum er lítið velt löngum yfir því hver mun verða kjörinn heldur hversu mikil kosningaþátttaka verður og hvort einhver brögð verði í tafli.

Þannig greinir Herald Tribune frá því að upp hefur komið ásökun um kosningasvindl í Síberíu auk þess sem vafasöm atriði hafi komið upp í Moskvu við opnum kjörstaða þar sem nemendur í herskóla þurftu að sýna kjörseðla sína áður en þeir voru látnir í kjörkassann.

Ekkert af þessu er þó staðfest en búast má við frekari umfjöllun um kosningarnar í dag og næstu daga.