Fasteignafélagið Landic Property vinnur að því að loka þeim fasteignaþróunarverkefnum sem unnin voru á vegum Keops Developments. Að sögn Viðars Þorkelssonar, forstjóra Landic, hefur félaginu orðið ágætlega ágengt í því.

Landic vinnur nú hörðum höndum við að loka þeim þróunarverkefnum sem voru í höndum félagsins sem mun væntanlega hafa í för með sér afskriftir á hönnunar- og þróunarkostnaði.

Í danska viðskiptablaðinu Börsen var greint frá því í dag að Landic Property hefði frest fram á mánudag til að borga lóð á hafnarsvæðinu í Árósum. Verðið á lóðinni er 417 milljónir danskra kr. Að sögn Viðars er verið að vinna að lausn þess máls en félagið hafði áform um byggingu háhýsis á lóðinni. Verkið hét Lighthouse og átti háhýsið að vera 142 metrar og var gert ráð fyrir íbúðabyggð og verslunum í kring. ,,Það er verið að vinna úr því máli með fjármögununaraðila og bæjaryfirvöldum," sagði Viðar.

- Þannig að það er enn í gangi hjá ykkur?

,,Við erum ennþá að vinna að framgangi málsins. Við erum að reyna að finna lausn á málinu og keyra það áfram."

-  Yrði það áfram í ykkar eigu?

,,Það á eftir að koma í ljós hvernig spilast úr því. Auðvitað er verið að skoða þessi verkefni í ljósi aðstæðna. Það eru allt aðrar aðstæður í dag en voru. Menn verða að aðlaga sig að því."

- En er ekki tómt mál um að tala að fara að byggja háhýsi þarna?

,,Jú, það er ljóst. Menn eru að reyna að finna lausnir sem taka mið af núverandi markaðsaðstæðum."

Landic hefur fjárfest talsvert í verkefninu í því sem snýr að þróun og hönnun verkefnisins.

Landic lokaði í síðustu viku verkefni sem fyrirhugað var í Hróarskeldu. Það var stórt verkefni sem viðar sagði að hefði tekist samkomulag við verktaka að þeir færu út úr.

Sem kunnugt er þurfti Landic að taka til baka fasteignaþróunarverkefni sem féllu undir Keops Developmennt. Að sögn Viðars er unnið skipulega að því að vinna úr þeim verkefnum og loka þeim. ,,Við sjáum ekki framtíð okkar í þróunarverkefnum," sagði Viðar.