Innan við 10% viðskiptavina á McDonald‘s veitingastöðum í Bandaríkjunum segjast borða inni á veitingastaðnum sjálfum.

Samkvæmt markaðsrannsóknarfyrirtækinu Circana var tala þeirra sem snæddu máltíðir sínar inni á veitingastaðnum, frekar en að taka matinn með sér heim, 14% fyrstu fimm mánuði ársins og 21% fyrir heimsfaraldur.

McDonald‘s segir að heimsfaraldurinn hafi flýtt fyrir þróun sem var þegar byrjuð en Bandaríkjamenn hafa í auknum mæli kosið að borða skyndibitamat heima hjá sér undanfarin ár.

Skyndibitakeðjan hefur verið í auknum mæli að fjárfesta í fleiri bílalúgum og sums staðar er ekki einu sinni lengur borðþjónusta. „Það þarf ekki lengur að bjóða upp á þessar stóru veitingasali eins og áður fyrr,“ segir Chris Kempczinski, forstjóri McDonald‘s.

Margir veitingastaðir segjast hins vegar ekki ætla að gefast upp á veitingasölum sínum og vilja að veitingastaðir þeirra haldi áfram að vera nútímalegir, snyrtilegir og aðlaðandi.

Það var heldur ekki langt síðan að McDonald‘s hét því að það myndi eyða fleiri milljörðum Bandaríkjadala í nútímalegar endurbætur á veitingastöðum sínum sem hófust árið 2017. Keðjan býst nú við því að veitingasalir þeirra verði endurnýjaðir á tíu ára fresti.