Guðmundur Páll Líndal, annar stofnanda Lava Cheese nýsköpunarfyrirtækisins segir félagið hafa safnað 700 þúsund evrum, andvirði tæplega 100 milljóna íslenskra króna, í gegnum hópfjármögnun að því er Northstack segir frá.

Guðmundur segir virkan nýsköpunarmarkað í matvælum í Skandinavíu hafa hjálpað fyrirtækinu í söfnuninni sem fór fram í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Funderbeam. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um standa þeir félagar Guðmundur og Jósep Birgir Þórhallsson að fyrirtækinu, sem framleiðir ketovænt snakk úr brenndum osti, bæði hér á landi í samstarfi við MS , og í Svíþjóð.

Guðmundur segir frá ákvörðuninni um að fara þessa leið hafa verið tekna þegar mesta svartsýnin var hér á landi í kringum óvissu á vinnumarkaði fyrr í vetur, en einungis um 10% fjárfestingarinnar kemur innanlands.

Stærstu fjárfestarnir lögðu til 200 þúsund evrur, en þær smæstu námu um 100 evrum, það er frá 28,5 milljónum króna niður í 14 þúsund krónur. Guðmundur er þó ekkert síður ánægður með smærri fjárfestana sem eru um 300 talsins, því þar með er félagið komið með sterkan hóp áhugasamra um vörur fyrirtækisins sem hafi hagsmuni af því að breiða út vörumerkið.