Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar leggur til að greiddur verði arður til hlutahafa sem nemur fjórum milljörðum króna og að 1,5 milljarði til viðbótar verði varið til kaupa á eigin bréfum félagsins. Kemur þetta fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að heildareignir TM í árslok 2014 hafi verið 31,1 milljarður króna og að skuldir hafi verið 17,1 milljarður króna. Gjaldþol í lok árs 2014, að teknu tilliti til arðgreiðslu og breyttra uppgjörsaðferða, var 9,7 milljarðar króna, sem er 147% af gjaldþolskröfu.

Stefnt að útgáfu víkjandi skuldabréfs

Þá segir að stefnt sé að útgáfu víkjandi skuldabréfs fyrir allt að tvo milljarða króna á þessu ári. Útgáfan mun tilheyra eiginfjárþætti 2 og segir í tilkynningunni að hún muni miða að því að gera fjármagnsskipan félagsins sem hagkvæmasta. Gengið hefur verið til samninga við Arctica Finance um ráðgjöf við útgáfu og sölu skuldabréfsins en stefnt er að skráningu þess í Kauphöll á árinu.