Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir samkeppnisyfirvöld lengi hafa varað við því að mjólkuriðnaðurinn væri undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Þetta sagði hann í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Þetta hafi gerst eftir breytingar á búvörulögum árið 2004.

Ákvæðum samkeppnislaga, sem ætlað er að vinna gegn samkeppnishamlandi samruna og samráði, vikið til hliðar á mjólkurmarkaði. Þetta var gert gegn viðvörunum samkeppnisyfirvalda að sögn Páls. Hann sagði meðal annars í viðtalinu að samkeppnisyfirvöld hafi fylgst með þróuninni, "þar sem til hefur orðið svo gott sem einokunaraðili á þessum markaði." Ummæli Páls koma í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins í gær um að sekta Mjólkursamsöluna (MS) um 370 milljónir króna fyrir að hafa selt keppinautum sínum hrámjólk á 17 prósent hærra verði en fyrirtækjum sem eru tengd MS.

Forsvarsmenn MS hafa ekki viljað tjá sig um málið en segja í tilkynningu að farið hafi verið að lögum. Málinu verði áfrýjað.