Mikill meirihluti hluthafa á fundi í hollenska félaginu Stork, eða 86,5%, samþykkti í gær tillögu um að brjóta félagið upp. Þessi fjöldi hefur 42,8% af útistandandi heildarhlutafé Stork á bak við sig og er atkvæðagreiðslan því ekki bindandi að mati stjórnarinnar. Með þessari samþykkt eru líkurnar samt taldar hafa aukist verulega á að Marel muni reyna að tryggja hagsmuni sína vegna áralangs samstarfs við Stork með kaupum á Stork Food Systems.

Í yfirlýsingu Marels til Kauphallar Íslands á dögunum kom fram að engar formlegar viðræður hafa þó verið í gangi um sameiningu fyrirtækjanna, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðins hafa óformlegar viðræður átt sér stað Í hollenskum fjölmiðlum var haft eftir stjórnarformanninum, Árna Oddi Þórðarsyni, að Marel hafi haft samband við Stork um yfirtöku og að Marel væri fjárhagslega reiðubúið í slíkt verkefni.

Marel á aðild að 8% hlut í Stork í gegnum eignarhaldsfélagið FLM. Sá hlutur hefur verið talinn lýsa vilja Marels yfir að tryggja sér aðgang að borðinu komi til uppskipta á félaginu. Að mati Van Lanschot bankans er verðmæti Stork Food Systems um 250 milljónir evra, eða um 21,5 milljarðar íslenskra króna.

Það voru fjárfestingasjóðirnir Centaurus Capital Ltd. í Bretlandi og Paulson & Co. Inc.í Bandaríkjunum sem fóru fram á hluthafafundinn í gær og lögðu fram tillöguna um uppskiptin. Er þessi samþykkt gerð þvert á vilja stjórnar félagsins sem vildi halda samsteypunni óbreyttri, en naut aðeins stuðnings 13,5% hluthafa á fundinum. Í samþykktinni felst að lagt verði fyrir stjórn Stork að einbeita sér að rekstri Stork Aerospace sem er ein af fjórum meginstoðum fyrirtækisins. Hinar þrjár þ.e. Stork Prints, Stork Food Systems og Stork Technical Service verði þá seldar.

Á fréttavef Dow Jones er haft eftir stjórnarformanni Stork, Jan Kalff, að atkvæðagreiðslan sé ekki bindandi fyrir félagið. Stjórnin muni gefa út yfirlýsingu eins fljótt og auðið er um hvernig brugðist verði við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Áður hafði stjórn Stork, eins og fyrr, segir gefið það út að hún væri á móti uppskiptum á félaginu.

Centaurus Capital og Paulson & Co. eiga sameiginlega um 33% hlut í Stork samsteypunni. Þessi félög hafa þegar gefið í skyn að þau séu tilbúin til að fara með málið fyrir dómstóla í því augnamiði að fá stjórninni vísað frá völdum. Ekki náðist í Hörð Arnarson, forstjóra Marels vegna málsins.