Hlutabréfamarkaðir hækkuðu beggja megin Atlantshafsins í dag og hafa til að mynda ekki hækkað jafn mikið í Bandaríkjunum á einni viku í rúma fjóra mánuði.

Í Bandaríkjunum hækkaði Nasdaq vísitalan um 0,4%, Dow Jones um 0,75% og S&P 500 um 0,8% en S&P 500 hefur þá hækkað um 11% í þessari viku.

Fyrir utan banka og fjármálafyrirtæki vestanhafs hækkaði líf- og sjúkdómafyrirtækið Humana um tæp 8% eftir að fjölmiðlar greindu frá því að verðbréfamiðlar á Wall Street hefðu veðjað sín á milli um félagið yrði yfirtekið á fyrri hluta þessa árs.

Slíkar bollaleggingar eru að sjálfsögðu ólöglegar að sögn viðmælanda Bloomberg fréttaveitunnar en gefa þó vakandi fjárfestum tækifæri til að sjá sér hag í því að fjárfesta í félaginu ef einhver annar hefur áhuga á að taka yfir það og hugsanlega greiða vel fyrir.

Hráolíuverð lækkaði í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 46,25 dali og hafði þá lækkað um 1,7% yfir daginn. Olíuverð hækkaði þó um 1,6% í vikunni og hefur hækkað um 3,7% í vikunni.

Bjartsýni bandarískra banka halda mörkuðum í Evrópu á floti

Hlutabréfamarkaðir hækkuðu einni í Evrópu, nú fjórða daginn í röð en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir til bjartsýni bandarísku bankanna Citigroup og Bank of America sem báðir hafa lýst því yfir að þeir þurfi ekki á frekari fjármagni að halda frá hinu opinbera.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði um 0,7% en hafði þó fyrr um daginn hækkað um 1,4%. Gengi vísitölunnar var 701,5 í lok dags en þetta er í fyrsta skipti í rúmar 3 vikur sem vísitalan fer 700 stig.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,1%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan einnig um 0,2% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,1%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,7%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,2%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,8% en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,6%.