Þekkingarfyrirtækið Mentor tapaði rúmlega 102 milljónum króna á árinu 2011. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. Fyrirtækið rekur meðal annars upplýsingakerfi fyrir leik- og grunnskóla hér á landi. Samkvæmt ársreikningi félagsins eru helstu eignir þess eignfærður þróunarkostnaður Mentor.is, viðskiptavild og handbært fé félagsins.

Á undanförnum árum hefur það víkkað út starfsemi sína og meðal annars bárust fréttir af því fyrr í sumar að það hygðist starfa einnig á Ítalíu. Meginstarfsemi félagsins fer fram á Íslandi og í Svíþjóð. Hins vegar stofnaði fyrirtækið dótturfélög bæði í Sviss og í Bretlandi á árinu 2011.

Stærsti eigandi Mentor er sjóðurinn Frumtak með 37,4% hlut, en hann er í eigu stóru bankanna þriggja, Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka auk stærstu lífeyrissjóða landsins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Þar á eftir koma þau Vilborg Einarsdóttir og Jón Georg Aðalsteinsson með 17,7% hlut hvort og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með 13,9%. Nýsköpunarsjóðurinn er í raun með stærri hlut þar sem hann á einnig hlut í félaginu í gegnum Frumtak.