MMR hefur birt niðurstöður könnunar þar sem mælt var traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála. Traust til flestra stofnana sem könnunin náði til hefur dregist saman frá síðustu könnun sem gerð var í nóvember 2013.

Þannig sögðust færri bera traust til Landshelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóra, sérstaks saksóknara, ríkissaksóknara, Hæstaréttar, héraðsdómstólanna og dómskerfisins í heild.

Landhelgisgæslan nýtur mests trausts, en alls sögðust 71,4% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til hennar, borið saman við 82% á síðasta ári.

Traust á dómskerfinu í heild hefur dregist saman um tæp 10%, en 28,9% sögðust bera mikið traust til þess nú samanborið við 38,1% í nóvember 2013. Traust til Hæstaréttar Íslands dregst saman um nær 12 prósentustig, en nú sögðust 34,3% bera mikið traust til réttarins samanborið við 46,5% í fyrra.

Ríkislögreglustjóri nýtur mikils trausts 46,3% þeirra sem tóku afstöðu samanborið við 55,1% í nóvember 2013. Traust til sérstaks saksóknara dregst einnig saman um tæp 8% og mælist nú 39,3%. Loks mældist traust til ríkissaksóknara nú 35% en það var 44,8% á síðasta ári.

Samtals tóku 96,9% afstöðu til spurningarinnar og var svarfjöldi 976 einstaklingar.