Hagnaður bandaríska byggingavörusmásalans Lowe‘s dróst saman um 18% milli ára á fyrsta ársfjórðungi.

Lowe‘s er næst stærsti byggingavörusmásali Bandaríkjanna á eftir Home Depot.

Hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðung nam 607 milljónum Bandaríkjadala (44,8 ma.ísl.kr.) sem gerir um 41 cent á hvern hlut. Hagnaður félagsins á sama tíma í fyrra var 739 milljónir dala eða um 48 cent á hvern hlut.

Hagnaður Lowe‘s er þó í takt væntingar en greiningaraðilar vestanhafs höfðu gert ráð fyrir 40 centa hagnaði á hvern hlut.

Sala félagsins lækkaði þó um 1,3% og var um 12 milljarðar dala á ársfjórðungnum. Ef aðeins er horft til verslana sem hafa verið opnar í minnst 13 mánuði hefur salan minnkað um 8,4%.

„Fólk virðist kaupa minna af byggingavörum þegar í harðbakkann slær."

Smásala á byggingavörumarkaði þykir að sögn Bloomberg fréttaveitunnar oft gefa skilaboð um efnahagsástand landsins.

„Fólk virðist kaupa minna af byggingavörum þegar í harðbakkann slær," segir ónafngreindur viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar.

Almenningu lætur viðgerðir og endurnýjun heimila bíða þegar pyngjan léttist og vísa bandarískir fjölmiðlar gjarnan í árangur byggingavörusmásala þegar velt er vöngum yfir horfum í efnahagslífi.

„Almennar neikvæðar efnahagshorfur, órói á fasteignamörkuðum, hækkandi eldsneytis- og matarverð og aukið atvinnuleysi verður til þess að væntingavísitölur lækka og fólk setur það ekki í forgang að endurnýja heimili sín,“ segir Robert Niblock, stjórnarformaður Lowe‘s í tilkynningu frá félaginu.

Þá greinir Reuters fréttastofan frá því að Home Depot muni kynna tap á fyrsta fyrsta ársfjórðungi en félagið kynnir rekstrarniðurstöður sínar á morgun.

Hlutabréf í Lowes hafa lækkað um 3% á mörkuðum í New York í dag en hafa lækkað um tæp 26% það sem af er árinu.