Neytendastamtökin birta í dag stutta yfirferð um það hvernig bankarnir markaðssettu sig fyrir bankahrunið en þar er vísað til auglýsinga bankanna þar sem almenningi var boðin lán yfir hinu og þessu svo dæmi sé tekið.

„Fróðlegt væri að vita hvað bankarnir hafa eytt miklu fé í auglýsingar og markaðssetningu á undanförnum árum,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

„Eitt er víst að það hefur verið mikið og mun meira en góðu hófi gegnir. Langflestar auglýsingar snerust um lánatilboð og markmiðið virtist einna helst vera að skuldsetja þjóðina. Neytendasamtökin gagnrýndu fyrirtækin fyrir ásækna markaðssetningu sem sérstaklega var beint að viðkvæmasta viðskiptahópi bankanna þ.e. unga fólkinu.“

Samtökin taka þó fram að í dag sé markaðssetning bankanna með allt öðrum hætti. Heimilisbókhald, námskeið og markmiðasetning í fjármálum og fagleg grunnþjónusta sé orðið aðalsmerki viðskiptabankanna.

Sjá nánar á vef Neytendasamtakanna.