Í fréttatilkynningu frá Northern Travel Holding hf. kemur fram að fyrirtækið hefur keypt allt hlutafé í félaginu Astraeus Limited. Fyrir kaupin átti Northern Travel Holding hf 51% af hlutafé félagins og á nú 100% af hlutafé félagsins.

Kaupin eru hluti af stefnu Northern Travel Holding. hf um að efla dótturfélög sín og styrkja stöðu þeirra innbyrðis og stöðu þeirra á markaði. Markmið kaupanna er að styðja við áframhaldandi vöxt á núverandi mörkuðum og bæta enn frekar möguleika á aukinni samvinnu og að nýta samlegðaráhrif innan samstæðunnar.

Astraeus sinnir verkefnum í leiguflugi og áætlanaflugi og gerir út starfssemi sína frá London Gatwick í Bretlandi. Félagið hefur starfað 5 ár, með verkefni um allan heim og þar á meðal á Íslandi.

Floti Astraeus samanstendur af 9 flugvélum: fimm Boeing 757-200, tveimur Boeing 737-700 og tveimur Boeing 737-300 að því er segir í tilkynningunni.