*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 7. október 2019 16:39

Á nýtt stig með sölunni á Tempo

Það má segja að salan á Tempo hafi gert okkur kleift að sinna hlutum með báðum höndum sem við gátum ekki sinnt af fullum krafti áður.“

Ritstjórn
Finnur Oddsson, forstjóri Origo.
Haraldur Guðjónsson

Reksturinn á fyrri hluta ársins var töluvert betri en í fyrra. Því er ekki að neita að við höfðum sett okkur háleitari markmið fyrir árið, en þegar við horfum heilt yfir á það sem var í gangi á þessu hálfa ári erum við nokkuð sátt við stöðuna. Við erum að sjá tekjuvöxt í rekstri sem tengist hugbúnaðartengdri starfsemi og afkoman þar er ágæt,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Origo. Methagnaður var hjá Origo á síðasta ári upp á 5,4 milljarða króna miðað við ríflega 400 milljóna króna hagnað árið 2017. Hagnaðurinn skýrðist að mestu af sölu á 55% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo í nóvember, en Finnur segir að grunnrekstur Origo hafi einnig gengið vel árið 2018.

Þá hafi salan á Tempo breytt miklu fyrir Origo. „Það má segja að salan á Tempo hafi gert okkur kleift að sinna hlutum með báðum höndum sem við gátum ekki sinnt af fullum krafti áður,“ segir Finnur. Salan sé einnig merkilegur áfangi í upplýsingatækni á Íslandi. „Salan er sennilega þriðja stærsta sala á hugbúnaðarfyrirtæki í Íslandssögunni ef horft er út frá virði félagsins sem var selt, á eftir CCP og NextCode,“ bendir hann á. „Þetta sýnir okkur að það er hægt að búa til gríðarleg verðmæti á grundvelli þekkingar sem er landamæralaus.“ 

Finnur segir að upphaf Tempo megi rekja til einfalds vandamáls sem Origo hafði leyst fyrir íslenskan kúnna. Í ljós hafi komið að fyrirtæki um allan heim voru að kljást við sama vandamál, sem sjáist á því að lausn Tempo hafi verið seld til yfir 120 landa og um 15 þúsund viðskiptavina. „Þannig varð einföld lausn að öflugu fyrirtæki á nokkrum árum. Þetta er auðvitað hægt að endurtaka og áhersla í starfi Origo í dag er að þróa eigin vörur með sambærilegum hætti.“

Kaupandi Tempo var bandaríska fjárfestingafélagið Diversis Capital sem Finnur segir hafa fengið mjög góðan samstarfsaðila. „Þeir hafa meiri sérfræðiþekkingu en við í að taka hugbúnaðarfyrirtæki og skala það upp á næsta stig. Við erum gríðarlega stolt af þeirri sögu sem við eigum með Tempo og að það hafi orðið til innan okkar raða. Við erum að sjá hraðari tekjuvöxt hjá Tempo en verið hefur. Við erum að gíra félagið upp í enn hraðari vöxt með því að bæta við mjög reyndu fólki inn í stjórnendateymið. Það eru komnir nýr forstjóri, fjármálastjóri og markaðsstjóri inn í mjög öflugt teymi sem var fyrir.“

Vöxtur Tempo hefur hlaupið á tugum prósenta á ári frá stofnun félagsins. Tæplega 120 manns vinna hjá Tempo á Íslandi, í Kanada og Bandaríkjunum og mun félagið velta hátt í 30 milljónum dollara í ár. „Þó svo að Tempo sé nú komið út úr samstæðu Origo þá eigum við ennþá stóran hluta í félaginu og  velgengni þess á næstu árum mun hafa áhrif á verðmæti Origo,“ segir hann.

„Salan á Tempo setur Origo á allt annan stað ef við horfum út frá styrk efnahagsreiknings okkar og getu til að halda áfram fjárfestingu í lausnaþróun – gjarnan á hugbúnaðarlausnum. Hugbúnaðarlausnir eru þær lausnir sem er auðveldast að skala án hlutfallslegs tilkostnaðar. Það sem við horfum til núna er að þróa eigin lausnir og fjárfesta í litlum fyrirtækjum sem passa við það sem við erum að gera.“ Sem dæmi keypti Origo nýverið hugbúnaðarfyrirtækin Strikamerki og Bustravel IT.

Finnur segir að gróflega megi skipta starfsemi Origo í þrennt. „Í fyrsta lagi er það sala á margs konar tölvubúnaði, allt frá PC tölvum og upp í miðlægan búnað. Í öðru lagi sinnum við rekstrarþjónustu þar sem við sjáum um upplýsingatækniinnviði og rekstur fyrir fjöldamarga viðskiptavini. Í þriðja lagi er það hugbúnaðartengd starfsemi sem felst í þróun, sölu og ráðgjöf tengd eigin hugbúnaði og hugbúnaði frá þriðja aðila.“

Hvert svið veltir að jafnaði rúmlega fimm milljörðum króna á ári hverju en alls vinna ríflega 500 manns hjá Origo. „Við erum mjög stolt af þeim verkefnum sem við sinnum og kunnum að meta það traust sem viðskiptavinir sýna okkur á hverjum degi.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.