Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ákveðið að ógilda kaup Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Gunnars ehf., framleiðanda majones, sósa og ídýfa. Eftirlitið segir að kaupin hefðu að óbreyttu leitt til alvarlegrar röskunar á samkeppni í framleiðslu og sölu á majónesi og köldum sósum.

„Með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðendum á majónesi og köldum sósum á Íslandi,“ segir í tilkynningu á vef SKE.

Eftirlitið bendir á að KS framleiðir og dreifir sömu vörutegundum og Gunnars undir merkjum E. Finnsson og eftir atvikum Vogabæjar, auk þess sem báðir aðilar framleiða þessar vörur einnig fyrir önnur fyrirtæki. Þá selji báðir aðilar sömu vörutegundir til dagvöruverslana og stórnotenda.

Majónes og skyldar vörur hafa verið framleiddar undir vörumerkinu Gunnars allt frá árinu 1960. Fyrirtækið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2014.

Kaupfélagið náði samkomulagi um kaup á Gunnars í byrjun síðasta sumars og barst SKE samrunatilkynning þann 19. júlí síðastliðinn. Eftirlitið tjáði samrunaaðilum í byrjun október að frummat sitt benti til þess að samruninn myndi skaða samkeppni með alvarlegum hætti.

SKE segir að KS og Gunnars hafi í framhaldinu látið reyna á frummatið með því að koma frekari sjónarmiðum og gögnum á framfæri. SKE segist hafa í kjölfarið gefið út andmælaskjal þar sem frummatið er ítarlega rökstutt.

„Undir meðferð málsins hafa samrunaaðilar hvorki óskað eftir sáttaviðræðum né lagt fram tillögur að mögulegum skilyrðum með formlegum hætti. Þá hafa samrunaaðilar sérstaklega tekið fram að ekki sé byggt á því að fallast beri á samrunann vegna sjónarmiða um fyrirtæki á fallandi fæti.

Gunnars majónes
© Aðsend mynd (AÐSEND)