Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) gera ráð fyrir því að draga muni úr eftirspurn eftir olíu um allan heim á næstunni. Ástæðan eru áhrif niðursveiflu efnahagslífsins á almenning, svo sem mikið atvinnuleysi, minni kaupmáttur og óvissa um framtíðarhorfur sem hefur neikvæð áhrif á neyslu fólks.

Fram kemur í mánaðarskýrslu OPEC sem birt var í dag að eftirspurn muni nema 87,81 milljón tunna á dag. Það er 180 þúsund olíutunnum minna á dag en fyrir áætlun hljóðaði upp á. Búist er við betri horfum á næsta ári.

Í skýrslunni kemur fram að skuldavandi á evrusvæðinu hafi valdið því að neytendur haldi þar að sér höndum. OPEC-ríkin telja ólíklegt að gríska ríkinu verði bjargað fyrir horn og muni það lenda í greiðsluþrotii.

Gert er ráð fyrir því að nýmarkaðsríkin muni halda uppi eftirspurn eftir olíu, að mati OPEC. Indverjar muni þar leiða lestina. Ekki er gert ráð fyrir því að Kínverjar hafi mikil áhrif enda hafa stjórnvöld þar kynnt aðhaldssamar aðgerðir sem bæði er ætlað að draga úr ofhitnun hagkerfisins en koma í veg fyrir harða lendingu þess, að sögn fréttastofu Reuters.

OPEC-ríkin framleiða um þriðjung af allra hráolíu í heiminum.