Orka náttúrunnar mun síðar í vikunni opna á ný 156 Hverfahleðslur sem staðsettar eru víða um borg eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi úrskurð kærunefndar útboðsmála. ON greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Í lok júní úrskurðaði kærunefnd útboðsmála að útboð Reykjavíkurborgar á svokölluðum Hverfahleðslum væri ógilt þar sem ekki var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Í kjölfarið var Orku náttúrunnar, sem vann útboðið á sínum tíma, gert að slökkva á hleðslunum.

„Eftir að hafa rýnt í úrskurð kærunefndar taldi ON ljóst að forsendur nefndarinnar fyrir niðurstöðunni væru rangar. Því var ákveðið að fara með málið fyrir héraðsdóm til þess að fá úrskurðinum hnekkt. Flýtimeðferð fékkst á dómsmálinu og í dag  féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á sjónarmið ON,“ segir í fréttatilkynningu.

Þá segir jafnframt að hverfahleðslurnar sem hafi verið ótengdar síðan í lok júní verða tengdar á ný strax í vikunni. „Til þess að þessi endurnýjuðu kynni rafbílaeigenda af Hverfahleðslum ON gangi sem best fyrir sig hefur fyrirtækið ákveðið að frá og með föstudeginum 26.nóvember verði frítt að hlaða í öllum Hverfahleðslum ON út mánuðinn."