Frá og með árinu 2025 munu skipafélög þurfa að kaupa losunarheimildir á almennum markaði til að gera upp losun sína. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frumvarpi sem stefnt er að verði að lögum fyrir áramót.

Í frumvarpinu er einnig að finna innleiðingu á EES-tilskipun sem snýr að flugrekstri í ETS-kerfinu en í því tilviki komust stjórnvöld að samkomulagi við framkvæmdastjórn ESB fyrr á árinu um aðlögun við tilskipunina fyrir Ísland. Hið sama á þó ekki við um sjóflutninga.

Samtök verslunar og þjónustu sendu ásamt öðrum hagsmunasamtökum erindi á ráðherra í sumar og bentu á að Ísland væri fámennt eyríki sem væri háð siglingum en Evrópusambandið taldi tilefni til að veita slíkum ríkjum tímabundinn stuðning við setningu tilskipunarinnar.

„Þegar við í raun og veru fréttum af málinu þá var það komið svo langt að íslensk stjórnvöld mátu það alla vega þannig að það væri ekki lengur hægt að reyna að hafa áhrif á málið með tilliti til hagsmuna Íslands, þannig að við svolítið urðum af þeim möguleika,“ segir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ.

Spurður hvort stjórnvöld geti eitthvað gert til að milda höggið fyrir skipafélögin telur Benedikt að ákveðnir möguleikar séu í stöðunni. Nefnir hann til að mynda að áætlaðar tekjur ríkissjóðs af sölu losunarheimilda verði fimm til sjö milljarðar árið 2027 en tekjurnar eru ekki eyrnamerktar verkefnum á sviði loftslagsmála.

„Tilgangurinn með þessari löggjöf er í raun og veru að hvetja til orkuskipta, betri orkunýtni eða samdráttar í losun, og ef það lægi fyrir að eitthvað af þessum tekjum sem renna í ríkissjóð myndu renna til einhvers konar verkefna á því sviði, þá myndi það bæði hjálpa til í þessum verkefnum og líka hvetja fyrirtækin til þess að standa í hvers konar umbótum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.