Einn af hverjum fimm vinnandi mönnum í Bandaríkjunum fer reglulega með vinnufélögum sínum til öldrykkju eftir vinnu. Samkvæmt nýrri rannsókn eru algengustu mistök slíkra ferða allt frá því að tala illa um vinnufélagana til þess að kela við kollega sinn.

Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Flestir segjast fara á krá með vinnufélögunum til að kynnast þeim betur, en 15% segjast fara til að heyra nýjasta slúðrið á vinnustaðnum og 13% segjast fara vegna þess að þeim finnist þeim það skylt. Könnunin var unnin af heimasíðunni CareerBuilder.com.

16% svarenda sögðust hafa lent í því að tala illa um vinnufélaga sinn, 10% kjöftuðu leyndarmálum vinnufélaga sinna, 8% hafa kysst vinnufélaga og 8% sögðust hafa drukkið of mikið og hagað sér með óviðeigandi hætti.

Á meðan 21% svarenda sögðu pöbbarölt eftir vinnu vera gott upp á tengslanetið að gera sögðu 85% að það hjálpaði sér ekki að fá stöðuhækkun.

Svarendur könnunarinnar voru 6.987 talsins og staðalfrávik niðurstaðna er 1,2%.