Samninganefnd Samtaka handritshöfunda í Bandaríkjunum samþykkti einhljóða nýjan þriggja ára samning við stóru myndverin í Hollywood. Þetta kemur fram á vefútgáfu Wall Street Journal.

Þetta þýðir að endanlegt samþykki er handan við hornið, en handritshöfundar hafa verið í verkfalli í rúmlega þrjá mánuði. Samtök handritshöfunda hafa boðað til blaðamannafundar í Los Angeles í dag til að ræða samninginn við fjölmiðla.

Óskarverðlaunin verða haldin þann 24. febrúar næstkomandi, og anda skipuleggjendur hátíðarinnar eflaust léttar við þessi tíðindi.