Landsvirkjun og Alcan á Íslandi hf. hafa uppfyllt eða fallið frá fyrirvörum við samning um raforkusölu til álversins í Straumsvík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun en samningurinn var undirritaður 15. júní síðastliðinn með tilteknum fyrirvörum. Allir fyrirvarar hafa nú verið uppfylltir, og tekur samningurinn gildi 1.október 2010.

Fram kemur að samningurinn sé tvíþættur. Annars vegar er endursamið um verð á núverandi orkusölu til álversins (2.932  GWst) og hins vegar er samið um afhendingu viðbótar orku (658 GWst) vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins.

Nýtt raforkuverð tekur gildi 1. október 2010. Verðið er í bandaríkjadölum, verðbætt miðað við bandaríska neysluvísitölu og er álverðstenging afnumin. Samningurinn gildir til ársins 2036 sem er tæplega tólf ára framlenging frá núverandi samningi.

„Þessi samningur er fyrsta skrefið í stefnu Landsvirkjunar að tengja verðþróun á raforku hérlendis við þróun á alþjóðlegum mörkuðum. Miðað við núverandi álverð skilar samningurinn umtalsverðri hækkun á raforkuverði fyrir Landsvirkjun,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í tilkynningunni.