Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri kerfisþróunarsviðs Landsnets segir raforkuverð hér á landi hátt í alþjóðlegum samanburði að því er Morgunblaðið segir frá. Um tíundi hluti rafmagnsreikninga heimila hér á landi eru vegna flutningsgjalda fyrirtækisins, en meðalverð orkunnar sem félagið hefur samið um kaup á fyrir þriðja ársfjórðung hækkaði milli ára um 28%.

Brot af því gjaldi kemur svo til vegna flutningstaps, sem hefur aukist um 56% frá árinu 2014. Íris segir ástæðuna vera í skoðun hjá félaginu en hækkunin er umfram áætlaðar vísitöluhækkanir. Meðaltapið er að 2% orkunnar tapist frá framleiðslu til notkunar vegna viðnáms og spennu, en verðmætatapið nemur um 376 milljónum króna.

Raforkuhækkunin hér á landi á þriðja ársfjórðungi er um 12% umfram hækkanir hjá Nordpool, stærsta raforkumarkaðar í Evrópu.

„[Þ]ar kemur í ljós að íslensku verðin voru hærri í níu mánuði af 12 á síðasta ári samanborið við verð á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum,“ segir Íris sem segir að fyrirtækið bjóði út kaup á raforku ársfjórðungslega til að ýta undir samkeppni sem virðist ekki nægileg.

„Orsökin gæti verið skortur á framboði hverju sinni en maður spyr sig auðvitað um samkeppnina. Hér á landi er ekki skammtímamarkaður líkt og í Evrópu og sömuleiðis eru raforkusalar fáir og mikill munur á stærð þessara fyrirtækja. Við erum hins vegar að bjóða út í mjög litlum einingum til að koma til móts við þessa stöðu. Verðið sem við sjáum á að endurspegla verð á markaði hverju sinni.“