Sjóklæðagerðin, móðurfélag 66 Norður, hagnaðist um 52 milljónir króna á síðasta ári miðað við 242 milljóna króna tap árið 2020.

Velta félagsins jókst um 18% á milli ára og hefur aldrei verið meiri á einu ári. Veltan nam tæpum 4,8 milljörðum miðað við ríflega 4 milljarða veltu árið 2020 og 4,6 milljarða veltu árið 2019.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum segir að faraldurinn hafi áfram haft áhrif á ferðaþjónustu og þar með sölu félagsins, sér í lagi yfir sumartímann. Á móti hafi sala aukist til þeirra sem búsettir eru á Íslandi sem og í vefsölu sem hafi vegið upp samdrátt í ferðamannasölu.

Í skýrslu stjórnar segir að þrátt fyrir heimsfaraldurinn hafi rekstur félagsins gengið vel og horfurnar framundan séu góðar. „Stjórnendur félagsins eru bjartsýnir á framtíðina og gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á öllum tekjusviðum. Stjórnendur félagsins stefna á frekari vöxt á erlendum mörkuðum með tilheyrandi kostnaðarauka og áhrifum á arðsemi til skemmri tíma," segir i skýrslu stjórnar.

Eignir félagsins námu 6,3 milljörðum króna um áramótin, eigið fé um 2,7 milljörðum króna og skuldir um 3,5 milljörðum króna.

Rekstrarkostnaður nam tæpum 4,4 milljörðum en þar af voru laun og launatengd gjöld 1,4 milljaðrar og hækka um tæpar 150 milljónir króna á milli ára. Stöðugildum fjölgaði úr 284 í 290 á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 661 milljón króna miðað við 455 fyrir ári. Þá nam rekstrarhagnaður 165 milljónum króna miðað við 32 milljóna rekstrarap fyrir ári.

Félagið er að meirihluta í eigu hjónanna Helga Rúnars Óskarssonar og Bjarneyjar Harðardóttur en Helgi Rúnar er forstjóri félagsins. Þá keypti bandarískur fjárfestingasjóður tæplega helmingshlut í félaginu árið 2018.