Innheimtur fjármagnstekjuskattur var 17,7 milljarðar króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2011. Þetta er töluverð aukning frá sama tíma í fyrra þegar fjármagnsskatturinn nam um 15,7 milljörðum króna janúar til febrúar. Fjárlagaáætlunin gerði ráð fyrir 13,6 milljörðum króna í tekjum og er innheimtan í ár 4,1 milljarði króna umfram áætlanir.

Í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs kemur fram að hér er um að ræða skatt af fjármagnstekjum á síðasta fjórðungi ársins 2010 en greiðslurnar dreifðust á tvo mánuði þar sem gjalddaginn var 20. janúar og eindaginn 4. febrúar. Þetta er annað árið þar sem fjármagnstekjuskattur er greiddur fjórum sinnum á ári í stað einnar greiðslu í janúar líkt og gert var áður.

Innheimta eignarskatta var 755 milljónir kr. og jókst um 11,7% milli ára. Það stafar meðal annars af tilkomu auðlegðarskattsins, sem lagður var á í fyrsta sinn í ágúst 2010

Skatttekjur rúmir 76 milljarðar króna

Skatttekjur og tryggingagjöld námu 76,4 milljörðum kr. samanlagt í janúar og febrúar sem er 1,6% aukning frá fyrra ári og 7,3% yfir tekjuáætlun fjárlaga. Þar af var bókfærður tekjuskattur einstaklinga 15,5 milljarðar kr. sem er samdráttur um 3,9% frá sama tíma árið 2010 og 2,3% undir tekjuáætlun.

Fyrirtækin skila meiru í skatt

Tekjuskattur lögaðila nam 3 milljörðum kr. sem er 1,5 milljarða kr. aukning frá því í fyrra og 1,3 milljörðum kr. yfir áætlun fjárlaga. Hér er um að ræða reglubundna fyrirframgreiðslu lögaðila upp í þá álagningu sem mun liggja fyrir í haust. Fyrirframgreiðslan miðast ekki við hækkun skatthlutfallsins úr 15% í 18% sem gildir fyrir skattstofn ársins 2010, heldur mun hækkunin koma fyrst fram við álagningu.