Ekki er útlit fyrir miklar hreyfingar á fasteignamarkaði á næstunni þrátt fyrir óvænt drjúga hækkun milli mánaða í maí. Miklar vaxtalækkanir sem gert hafa greiðslubyrði lána viðráðanlegri, sterk eiginfjárstaða heimilanna og kaupmáttaraukning síðustu ára hafa kynt undir eftirspurn, á sama tíma og ekki er útlit fyrir mikla framboðsaukningu á næstunni.

Viðskiptum fækkaði í faraldrinum
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli mánaða í maí, og hefur ekki hækkað meira síðan haustið 2018. „Þetta var nokkuð áberandi hækkun miðað við síðustu mánuði. Það er ákveðið merki um að það sé líf í markaðnum, en það er erfitt að lesa of mikið í tölur fyrir einn mánuð,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum, og bendir á að fjöldi kaupsamninga hafi dregist verulega saman í apríl, á meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst, en á móti tekið hressilega við sér í maí.

„Ég held að þetta séu vaxtalækkanirnar. Fólk horfir mikið á greiðslubyrði lána, og með lægri vöxtum getur það keypt dýrari íbúð, sem ýtir við eftirspurninni. Í ofanálag hefur kaupmáttur verið að aukast hraðar en raunverð.“

Enn talsvert magn í pípunum
Samkvæmt íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins í mars hefur fjöldi íbúða í byggingu dregist saman, sér í lagi á fyrstu byggingarstigum. Una segir þó enn talsvert magn í pípunum. „Framboðið er ágætt, ég held við séum ekki lengur að glíma við skort þar. Það verður alveg talsvert byggt hérna á næstu árum þótt það hægi aðeins á.“

Þá bendir hún á að fjöldi fullbúinna íbúða sem ekki er enn búið að flytja inn í hefur aukist. „Það bendir til þess að það gangi verr að selja þessar nýju íbúðir,“ sem geti verið vísbending um að framboðið sé orðið nokkuð gott, en einnig geti þar spilað inn í hvers konar húsnæði sé um að ræða. „Þegar það er talað um þörf fyrir íbúðir og svo er byggt og byggt og ekkert selst þá fær maður það óneitanlega á tilfinninguna að hugsanlega hafi ekki verið byggt það sem markaðinn vantar.“

Þrátt fyrir þessa óvæntu hækkun nú í maí sér hún ekki fyrir sér að íbúðaverð muni hækka mikið á næstunni. „Það eru flestir sammála um mjög hóflegar verðhækkanir. Við vorum að spá óbreyttu verði út þetta ár. Þessi hækkun kom vissulega á óvart, en hún sýnir okkur kannski helst hvaða áhrif vaxtalækkanir geta haft, og það er ekki mikið svigrúm þar fyrir frekari lækkanir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .