*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 11. nóvember 2004 15:09

Slippstöðin semur um að stálfóðra fallgöngin

Ritstjórn

Slippstöðin ehf. á Akureyri hefur samið við þýska fyrirtækið DSB Stahlbau GmbH um að að stálfóðra fallgöng Kárahnjúkavirkjunar í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal og setja niður tilheyrandi búnað í stöðvarhúsi virkjunarinnar. Í þetta fara um 4.400 tonn af stáli! Tvenn lóðrétt 420 metra löng göng hafa verið boruð úr inntakshelli í fjallinu niður að stöðvarhúshellinum og niður þau mun vatn falla úr aðrennslisgöngunum áleiðis inn á hverfla til framleiðslu rafmagns.

Stálfóðringarnar verða framleiddar í Þýskalandi og fyrstu einingarnar koma hingað til lands í vor. Slippstöðvarmenn taka við þeim, hífa þær niður í göngin, hverri ofan á aðra, sjóða saman og steypa utan með. Stærstu einstöku einingarnar verða um 45 tonn og gert er ráð fyrir að suðuefnið eitt verði um 17 tonn í verkefninu öllu! Strangar gæðakröfur eru gerðar til verksins, til dæmis verður stálsuðan í rörunum prófuð alls staðar með hljóðbylgju- og röntgentækni.

Verkefnið er mikil búbót fyrir Slippstöðina, enda með þeim stærri á sviði járniðnaðar sem fyrirtækið hefur samið um. Gert er ráð fyrir að 18 starfsmenn verði að jafnaði í Fljótsdal á vegum Slippstöðvarinnar og haldi til í starfsmannabúðum sem reistar verða á vinnusvæðinu. Verktími er áætlaður 18 mánuðir.

Guðmundujr Tulinius, framkvæmdastjóri Slippstöðvarinnar, segir að það sé mikill áfangi að fá þetta verkefni og í senn traustsyfirlýsing og viðurkenning á faglegu starfi fyrirtækisins. ,,Slippstöðin er eina verkstæðið á Íslandi sem hefur viðurkennt hæfnispróf suðumanna og suðuferla af erlendum flokkunarfélögum og það er forsenda þess að við getum annast verkið í Kárahnjúkavirkjun."