*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 6. febrúar 2006 13:27

Stjórnarskipti hjá Calidris

Sigurður Helgason tekur við stjórnarformennsku

Ritstjórn

Ný stjórn hefur verið kjörin hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Calidris að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Hana skipa Sigurður Helgason, Guðni B. Guðnason og Halla Tómasdóttir. Varamenn eru Kolbeinn Arinbjarnarson og Magnús Ingi Óskarsson.

Nýr stjórnarformaður, Sigurður Helgason, er fyrrverandi forstjóri Flugleiða/FL Group og Icelandair og stjórnarmaður hjá IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga. Sigurður hefur yfir 30 ára reynslu í flugrekstri og ferðaiðnaði. Þar af var hann forstjóri Icelandair um 20 ára skeið og þar með sá forstjóri sem lengst hefur setið á forstjórastóli nokkurs flugfélags í heiminum.

Halla Tómasdóttir hefur setið í stjórn Calidris síðan 2002. Hún var nýlega ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og hefur undanfarin ár starfað við kennslu hjá Háskólanum í Reykjavík, ráðgjöf og starfsmannastjórnun á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Guðni B. Guðnason er framkvæmdastjóri ANZA. ANZA er dótturfyrirtæki Símans og leiðandi í hýsingu og rekstri tölvukerfa á Íslandi. ANZA sér um hýsingu kerfa Calidris fyrir tvö erlend flugfélög. Í þeim tilvikum sér ANZA um uppsetningu og rekstur hugbúnaðarins á Íslandi, en bókanir og önnur gögn sem hugbúnaðurinn vinnur með eru flutt yfir internetið.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Calidris er íslenskt fyrirtæki sem selur sérhæfðar hugbúnarlausnir til flugfélaga á alþjóðamarkaði. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru leiðandi flugfélög eins og Emirates, Finnair og Icelandair. Starfsmenn eru 30 talsins og framkvæmdastjóri er Arna Harðardóttir.