Neytendasamtökin telja að verð á kaffi í verslunum hér á Íslandi þróst ekki í samræmi við heimsmarkaðsverð á kaffi og þróun gengis. Þau fjalla um þetta á vefsíðu sinni.

Þar segja þau að samkvæmt gögnum frá Hagstofunni hafi kaffi hækkað í verslunum hér á landi að meðaltali um 14,5% frá ágúst 2011 til ágúst 2013. Á sama tímabili lækkaði heimsmarkaðsverð á Robusta kaffibaunum um 15,1%. Um 40% af öllu kaffi í heiminum er framleitt úr slíkum baunum.

Þá segja Neytendasamtökin að sölugengi evrunnar hafi farið úr 165,21 krónum í 158,14 krónur á tímabilinu 2. ágúst 2011 til 1. ágúst á þessu ári. Dollarinn fór á sama tímabili úr 116,36 krónum í 119,38 krónur. Þannig hafi krónan styrkst gagnvart evru en gefið eftir gagnvart dollarnum á þessu tímabili.