Eftir því sem nýir miðlar hafa fram komið undanfarna öld og rúmlega það hafa menn ekki þreyst á að spá gömlu miðlunum dauða, þó flestir hafi þeir nú reynst furðulífseigir.

Sókn hinna nýju miðla á kostnað hinna eldri hefur hins vegar verið óvenjuhröð og afgerandi á síðustu árum, en einkum hafa prentmiðlar átt erfitt uppdráttar. Þar er þó ekki endilega allt sem sýnist, því flestir öflugustu nýmiðlarnir eru reknir undir handarjaðri eldri og hefðbundnari miðla. Á hinn bóginn hefur mönnum ekki gengið jafn vel að finna rétta tekjumódelið.

Í nýlegri fjölmiðlaskýrslu PWC sést vel hvernig hlutfallslegar auglýsingatekjur, þegar litið er til heimsins alls, hafa verið að safnast til nýju miðlanna í síauknum mæli. Því er jafnframt spáð að ekki muni hægjast á þeirri þróun í bráð.