Andrés Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka verslunar og þjónustu, segir um­ræðu um leigu­verð á í­búða­markaði á villi­götum, þrátt fyrir að vera nokkuð há­vær að undan­förnu.

„Í þeirri um­ræðu hefur verið full­yrt að verð­hækkanir á þessum markaði hafi verið úr öllu hófi og ekki í sam­ræmi við al­menna verð­lags­þróun í landinu. Af þeirri á­stæðu er rétt að staldra við og benda á nokkur ein­föld at­riði,” skrifar Andrés á Vísi.

Fyrsta at­riðið sem Andrés bendir á er að hús­næðis­kostur er og hefur alltaf verið stærsti út­gjalda­liður hverrar fjöl­skyldu. „Hvort sem fólk býr í eigin hús­næði eða er á leigu­markaði. Þannig hefur það á­vallt verið og verður að öllum líkindum á­fram.”

Eins og Við­skipta­blaðið greindi frá í síðustu viku hefur leigu­verð ekki haldið í ýmsar stærðir síðast­liðin ár, t.d. fast­eigna­verð og laun. Á föstu verð­lagi hækkaði vísi­tala í­búða­verðs fyrir fjöl­býli á höfuð­borgar­svæðinu um 22,4% frá desember 2019 til mars 2023 og launa­vísi­talan hækkaði um 6,9%. Á sama tíma­bili hefur leigu­verð lækkað um 4,8%.

Andrés færir þetta yfir á manna­mál í grein sinni og segir þetta sýna að húsa­leigan er hlut­falls­lega lág í saman­burði við verð á fast­eignum og fjár­magns­kostnað.

„Telja verður meiri líkur en minni á að húsa­leigan að­lagist að ein­hverju leyti þegar horft er til þess að í­búa­fjölgun hér á landi hefur verið meiri undan­farna mánuði en nokkru sinni fyrr á svo skömmum tíma og fram­boð á leigu­hús­næði er aug­ljós­lega ekki í takt við þarfir markaðarins. Hér mun lög­málið um fram­boð og eftir­spurn ein­fald­lega ráða þróuninni.“

„Hér gildir því hið sí­gilda“

Andrés vitnar jafn­framt í könnun Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunnar máli sínu til stuðnings en niður­stöður hennar benda til þess að stærri hluti leigj­enda sé á­nægðari með stöðu sína en oft áður. „Enda liggur það fyrir að út­gjöld vegna húsa­leigu hafa verið svipað hlut­fall ráð­stöfunar­tekna allan undan­genginn ára­tug.“

Til við­bótar bendir Andrés á lífs­kjara­könnun Hag­stofu Ís­lands en sam­kvæmt henni töldu 13,8% heimila á leigu­markaði sig búa við í­þyngjandi hús­næðis­kostnað árið 2022 í saman­burði við 25,4% árið 2015. „Þessi niður­staða bendir ein­dregið til þess að fólk hafi það al­mennt betra á leigu­markaði en oft áður.“

„Sú lýsing á á­standinu á leigu­markaði fyrir í­búðar­hús­næði sem birst hefur að undan­förnu er því ekki í sam­ræmi við þann raun­veru­leika sem opin­ber gögn segja til um. Hér gildir því hið sí­gilda að yfir­veguð um­ræða, byggð á stað­reyndum máls, er lík­legust til að leiða um­ræðuna inn á réttar brautir,“ skrifar Andrés að lokum.