„Það er fátt sem kemur þarna verulega á óvart,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs í samtali við Viðskiptablaðið. „þetta virðist vera í meginatriðum í samræmi við fjármálastefnu- og áætlun þó það sé erfitt að fullyrða um það vegna framsetningarinnar. Því væri til mikilla bóta að birta til samanburðar hvernig einstaka liðir voru á fjármálaáætlun.“

„Í ljósi þess hve mikið hefur vantað upp á innviðafjárfestingu, eins og rakið er í nýrri skýrslu okkar, Icelandic Economy, þá hefði verið gott að sjá meiri kraft í fjárfestingarvexti en minni áherslu á önnur útgjöld. Fjárfestingar í dag eru forsenda fyrir hagsæld og einnig ríkisútgjöldum í framtíðinni. Almennt drógust fjárfestingar saman um 14% á fyrri helmingi ársins og því góður tími nú til að styðja við aukna fjárfestingar.“

Konráð segir það fagnarefni að lækka eigi tryggingagjald og tekjuskatt. „Launakostnaður á Íslandi er mjög hár í alþjóðlegu samhengi og var sá 3. hæsti í Evrópu árið 2018 því ætti ganga lengra með lækkun tryggingagjalds að okkar mati. Það er líka jákvætt að flýta eigi lækkun tekjuskatts einstaklinga, einkum í ljósi hagsveiflunnar. Nú mun lækkunin að fullu koma fram árið 2021 en þá hefur hagkerfið vonandi og líklega tekið að vaxa á ný svo færa má rök fyrir því að flýta ferlinu enn frekar til að styðja við eftirspurn í hagkerfinu á næstu misserum,“ segir Konráð ennfremur.