Verkfallsboðun Afls og Drífanda vegna starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum er ólögmæt. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dag. Til stóð að félagsmenn þessara félaga færu í verkfall kl. 00:30 mánudaginn 7. febrúar nk.

Fjallað er um niðurstöðu félagsdóms á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins (SA). Samtökin hafa hafnað kröfum Afls og Drífanda um 30% hækkun launa starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum. „Ljóst er að langvinnt verkfall hefði komið til framkvæmda á mánudaginn hefði niðurstaða Félagsdóms verið á annan veg,“ segir á vef SA.

Frétt Samtaka atvinnulífsins:

„Tuga prósenta launahækkun í einstökum kjarasamningum myndi óhjákvæmilega flæða yfir allan vinnumarkaðinn og leiða af sér verðbólguöldu, enn lægra gengi krónunnar, hærri vexti, meira atvinnuleysi, skattahækkanir og enn lakari lífskjör.  Fámennir hópar sem eru í sterkri stöðu gætu tímabundið bætt sinn hag með því að misnota aðstöðu sína, en þegar upp er staðið yrði hagur þeirra og alls samfélagsins mun verri en áður.  Þetta er verðbólguleiðin sem Samtök atvinnulífsins hafna algjörlega.

SA hvetja eindregið til samstöðu milli aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að marka atvinnuleið út úr því kreppuástandi sem nú ríkir í atvinnulífinu og samfélaginu öllu og birtist í slæmri stöðu fjölda fyrirtækja og atvinnuleysi 14000 manns. Atvinnuleiðin byggir á kjarasamningum til þriggja ára með samræmdri launastefnu og launahækkunum í takt við nágrannalöndin með áherslu á kaupmáttaraukningu samfara lágri verðbólgu og aukinni atvinnu. Skynsamlegir kjarasamningar til þriggja ára eru ein meginforsenda stöðugleika og tiltrúar á batnandi tíð. Þar með fá fyrirtæki í landinu tækifæri til að ná aftur fyrri styrk, ráða fleira fólk í vinnu og bæta núverandi kjör starfsfólks.

SA leggja áherslu á ATVINNULEIÐINA þar sem áhersla er lögð á atvinnusköpun, fjárfestingu í atvinnulífinu og aukinn útflutning á vöru og þjónustu.“