Hagnaður VÍS á fyrsta fjórðungi þessa árs nam 711 milljónum króna, samanborið við 589,2 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Kemur þetta fram í samandregnum árshlutareikningi fyrirtækisins.

Heildartekjur fyrirtækisins hækka úr rúmum 4,5 milljörðum króna í tæpa 4,9 milljarða og þar af hækkuðu iðgjöld um 6,7% og námu rétt rúmum fjórum milljörðum króna. Eigin tjón hækkuðu um 22 milljónir króna milli ára og námu á fyrsta fjórðungi þessa árs rétt rúmum þremur milljörðum króna. Rekstrarkostnaður hækkaði um 143 milljónir á milli ára og nam rétt tæpum milljarði króna.

Eignir VÍS hækkuðu um rúma fimm milljarða króna á milli ára og námu 48,8 milljörðum króna í lok mars. Skuldir hækkuðu um 4,6 milljarða og námu 33,6 milljörðum króna í lok tímabilsins, en þar af eru vátryggingarskuldir 30,3 milljarðar. Eigið fé hækkaði um rúmar 700 milljónir og nam 15,2 milljörðum í lok tímabilsins.

Handbært fé frá rekstri nam 293,6 milljónum króna í ár en á fyrsta fjórðungi 2012 nam það 55,6 milljónum króna. Handbært fé í lok tímabilsins nam tæpum 4,6 milljörðum króna.

Samsett hlutfall fyrirtækisins var 100,4% á tímabilinu samanborið við 102,4% á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár á ársgrunni var 19,2%, en var 19,9% á sama tímabili 2012.

Í tilkynningunni er vakin athygli á því að Lífís varð hluti af samstæðu félagsins þann 1. apríl 2012 og því séu tölur ekki að fullu samanburðarhæfar milli fyrsta fjórðungs 2012 og 2013.

Þar kemur einnig fram að gjaldþol móðurfélagsins var 14,9 milljarðar króna og gjaldþolshlutfall 4,9 sem sé vel umfram markmið félagsins sem er að vera með gjaldþolshlutfallið yfir 4,0.