Viðskiptavinir sem töpuðu nokkru fé á viðskiptum sínum við bresku ferðaskrifstofuna XL Leisure Group, sem var að stórum hluta í eigu Eimskipafélagsins, á sama tíma og þeir sem höfðu fjárhagslega hagsmuni í félaginu ganga frá borðinu með milljónir.

Þannig hefst umfjöllun breska blaðsins Daily Mirror í gær.

Eins og kunnugt er varð XL Leisurs gjaldþrota fyrr í haust. Daily Mirror segir að í kjölfarið hafi um 85 þúsund viðskiptavinir orðið strandaglópar víðsvegar um heiminn sem þurftu með einum eða öðrum hætti að koma sér heim. Auk þess voru ferðaplön um 200 þúsund manns í uppnámi.

Þá hefur Daily Mirror eftir aðilum sem blaðið segir þekkja til málsins að viðskiptavinir félagsins muni að öllum líkindum engar bætur fá fyrir þann aukakostnað sem fylgdi því að koma sér heim á leið.

Þarna er að vísu átt við þá einstaklinga sem bókuðu sjálfir beint flug með félaginu en ekki þá sem keyptu ferðir sínar í gegnum ferðaskrifstofur.

Þeir sem kaupa flug á eigin vegum eru að sögn blaðsins ekki tryggðir af hinu opinbera.

Hins vegar hafi aðrir lánveitendur félagsins, og blaðið nefnir íslenska bankann Straum sem dæmi, hagnast á sölu eigna og starfssemi XL Leisure í Evrópu.