Myndband af veisluhöldum og öðru úr boðsferð Baugs til Mónakó árið 2007 hefur nú verið sett inn á Youtube en þar er að finna úrklippur úr ferðinni auk þeirra skemmtiatriða sem þar voru í boði.

Meðal þeirra sem skemmtu gestum voru Tina Turner en undir myndbandinu hljómar lagið „Simply the best.“

Í upphafi myndbandsins sjást þeir Stefán Hilmarsson, fyrrv. fjármálastjóri Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrv. stjórnarformanns Baugs, Gunnar Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Baugs og Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrv. stjórnarformaður FL Group og fyrrv. forstjóri Landic Property í flugstjórnarklefa flugvélar þar sem þeir bjóða gesti velkomna.

Auk þess má sjá breska skemmtikraftinn Jonathan Ross en jafnframt gerðu þeir félagar Matt Lucas og David Williams úr Little Britain svokallaða „sketsa“ tengda Baugi og er sýnt úr þeim í myndbandinu.

Þá má einnig finna úrklippur af öðrum skemmtiatriðum frá ferðinni, ræðuhöldum Jóns Ásgeirs, Höllu Tómasdóttur, stjórnarformanns Auðar Capital og Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónus. Þá kemur Hannes Smárason einnig fyrir í atriði með leikurunum úr Little Britain. Auk þess sést Jón Ásgeir reyna fyrir sér í X Factor.

Myndbandið má sjá hér.