Wow air stefnir á 200-300 milljón dollara, um 22-33 milljarða króna, hlutafjárútboð innan 18 mánaða, samkvæmt frétt Financial Times . Skúli Mogensen segist búast við að ná þeirri upphæð með því að bjóða út undir helming hlutafjár félagsins.

Skúli gefur ekki upp hvert hann vonast til að heildarvirði fyrirtækisins verði, en af ofangreindu leiðir að það yrði að lágmarki 44 milljarðar króna, og hugsanlega mun hærra. Þess má geta að heildarmarkaðsvirði Icelandair er um þessar mundir rúmir 36 milljarðar króna.

Sagt er frá því að flugfélagið hafi átt erfitt uppdráttar síðustu ár, en að Skúli vonist til að það fari að skila hagnaði á ný á næsta ári, og búist við tekjum yfir 90 milljörðum króna.

Skúli viðurkennir að félaginu hafi ekki tekist að halda niðri kostnaði, og nefnir þar sérstaklega eldsneytiskostnað, sem félagið hafi ekki varið sig fyrir breytingum á, en þá stefnu sé nú verið að endurskoða.

Hann segist einblína á að hækka hliðartekjur, eins og gjald fyrir aukið fótarými og veitingar um borð, sem hann segir vera leið félagsins til að vera samkeppnishæft við stærstu flugfélögin, og vonast til að geta aukið slíkar tekjur um 14% á farþega næsta árið.

Flugfélagið Norwegian er sagt hafa verið brautryðjandi í því að „sundurgreina“ flugfargjöld með því að rukka grunngjald fyrir flugsætið og selja aðra þjónustu aukalega. Skúli segir norska flugfélagið þó vera að hverfa frá þeirri stefnu með því að innifela þjónustu eins og þráðlaust net og afþreyingu um borð í flugfargjaldinu.

Þá er sagt frá því að Wow komi heldur illa út í augum sumra viðskiptavina. Wow er í síðasta sæti af 72 alþjóðlegum flugfélögum í einkunnagjöf AirHelp – fyrirtækis sem sérhæfir sig í að aðstoða viðskiptavini við að fá seinkuð eða aflýst flug bætt – sem byggir á stundvísi, gæðum þjónustu og því hversu auðvelt er að sækja bætur til félagsins. Skúli sagði í samtali við fréttaveituna CNBC í júní: „Við verðum að gera betur. Það er bersýnilega í okkar hag að koma þessu í lag.“