*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 2. desember 2018 12:01

Vöxtur netverslunar síðustu ár 140%

Á sama tíma og kortavelta ferðamanna hefur fjórfaldast hér á landi jókst netverslun langt umfram aðra verslun.

Höskuldur Marselíusarson
Netverslun hefur mælst á bilinu 3 til 4% af heildarverslun hér á landi, sem er mun minna en í nágrannalöndunum en virðist aukast hratt nú um stundir. Erlend kortavelta innanlands hefur fjórfaldast á fáum árum og nemur nú þriðjungi heildarveltu innanlands.
Haraldur Guðjónsson

Mikill vöxtur hefur verið í netverslun síðustu mánuði og segja stjórnendur netverslana metvöxt hafa verið yfir afsláttardaga síðustu vikna sem sífellt fleiri íslensk fyrirtæki taka þátt í. Afsláttardagarnir hafa hjálpað til við að færa jólaverslunina framar í dagatalinu.

Á sama tíma og það hefur verið fækkun heimsókna í verslanir á stórum afsláttardögum í kringum þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum, hefur netverslunin á sama tíma sprungið út. Íslensk fyrirtæki sjá enn vöxt í heimsóknum í verslanir á þessum dögum, en innkaupastjóri eins þeirra fyrirtækja sem fyrst fóru að bjóða upp á afslátt í kringum svarta föstudaginn svokallaða, sér að það geti snúist við líkt og erlendis strax á næsta ári. Netverslunin hefur hins vegar sprungið út þessa dagana, bæði á föstudeginum, en enn frekar á mánudeginum að sögn flestra viðmælanda.

Löng hefð er fyrir að veita afslátt daginn eftir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum, hinn svokallaða svarta föstudag sem var 23. nóvember síðastliðinn. Nýrri dagar eru stafræni mánudagurinn svokallaði, sem er mánudagurinn þar á eftir, sem kom upp 26. nóvember síðastliðinn, en einnig hafa íslensk fyrirtæki farið að bjóða afslátt í kringum 11. nóvember, hinn svokallaða dag einhleypra sem kínverska netverslun Alibaba stórveldisins hefur verið helsti brautryðjandinn fyrir.

Kortavelta ferðamanna fjórfaldast

Í tölum Hagstofu Íslands sem sjá má á meðfylgjandi grafi, sést að frá fyrstu tveimur mánuðum ársins 2013 til júlí- og ágústmánaðar þessa árs, hafi póst- og netverslun farið úr því að nema 1,76 milljörðum króna í tæplega 4,24 milljarða, á gengi hvers árs, sem er vöxtur um 140% á þessum tæplega sex árum. Á árinu 2013 nam meðalverðbólgan á ársgrundvelli 3,9%, en síðan þá hefur hún verið um og undir 2%.

Á sama tímabili hefur heildarvöxtur í íslenskri verslun farið úr 250 milljörðum króna, þar af 161,2 milljarðar í blandaðri smásölu ýmiss konar, sem teljast þá aðrar verslanir en sérvöruverslanir, í 346,4 milljarða. Það er vöxtur um 40%. Þar af nam verslun í blandaðri smásölu, sem stórverslanir eins og Costco ættu að teljast til, 217,5 milljörðum króna, og er því vöxturinn í henni nokkru minni, eða 30% á þessu tímabili.

Af tölum Seðlabanka Íslands um heildarveltu debet- og kreditkorta hérlendis, sem telur augljóslega til mun fleiri þátta en eingöngu verslunar, má þó sjá athyglisverða aukningu á veltu frá erlendum ferðamönnum. Þannig hefur velta erlendra debet- og kreditkorta hérlendis farið úr 65,8 milljörðum króna fyrstu tvo mánuði ársins 2013 í 239,1 milljarð króna í júlí og ágúst á þessu ári. Það er nærri fjórföldun, eða 360% aukning, sem gefur eflaust vísbendingu um hvaða áhrif ferðaþjónustan hefur haft á íslenska verslun. Hlutfallsaukninguna má einnig sjá á meðfylgjandi grafi, en velta erlendu kortanna hefur farið úr því að vera 12,1% af heildarveltunni sem var 543 milljarðar í upphafi árs 2013 í 33,5% af 714,4 milljarða heildarveltu í júlí og ágúst í ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim