Oddur Júlíusson, sem lék blaðamanninn Óttar í sjónvarpsþáttunum Ráðherrann, segir jólahefðir hafa verið mjög síbreytilegar hjá fjölskyldu hans undanfarin ár.

„Við foreldrar mínir, bróðir minn og börnin hans reynum að eyða tíma saman yfir jólin, hafa það náðugt, borða góðan mat og þess háttar, en ég veit ekki alveg hvernig þetta verður í ár, við förum svolítið bara eftir tilfinningunni. Undanfarin tvö ár hef ég líka reynt að eyða tíma með kærustu minni, Ebbu Katrínu, og hennar fjölskyldu."

Oddur er þakklátur fyrir að það sé lítið um jólastress í fjölskyldu hans. „Það eina sem er heilagt er að við borðum klukkan sex þegar klukkurnar hringja. Það er það eina sem ég finn fyrir að einhver pressa sé í kringum. Öllu öðru hefur alveg verið fleygt upp og endurraðað í gegnum árin."

Fjölskylda Odds kemur saman í sænskt jólaboð á hverju ári, hefð sem Oddi þykir mjög vænt um. „Það er mikil Svíþjóðartenging í fjölskyldunni minni, margir í fjölskyldunni hafa búið og lært í Svíþjóð. Maður frænku minnar, Kalli, er sænskur og virkilega flinkur í eldhúsinu. Þegar hann flutti til Íslands fyrir mörgum árum síðan saknaði hann mikið sænska jólamatarins. Hann hefur því eldað sænskan jólamat og heldur sænskt matarboð um jólin. Sænsk matarhefð hefur því verið svolítið viðloðin mína jólahátíð undanfarin ár."

Ýmiss konar sænskt góðgæti er á boðstólum í matarboðinu. „Það er mjög mikið af alls konar mat í boðinu. Það eru auðvitað sænskar kjötbollur og svo gerir Kalli pylsur frá grunni. Svo er sænska jólaskinkan, sem mér finnst mun betri en hamborgarhryggur, því hún er ekki jafn sölt. Síðan er til dæmis ýmiss konar kæfa, paté, rauðbeðusalat og einhvers konar kartöfluréttur með ansjósum í. Ég hélt alltaf að mér þættu ansjósur vondar, en svo kom bara í ljós að mér þætti það ekki."

Oddur segist alltaf bæði hlakka til og kvíða fyrir sænska matarboðinu. „Það er svo mikið af allskonar mat og ég þarf alltaf að smakka allt, þannig að ég borða oftast svo harkalega yfir mig að mér líður bara ekkert vel í kjölfarið. En það er samt svo himneskt meðan á því stendur. Ég hef verið að reyna að vanda mig, ég þarf alveg að passað mig að fara rólega í þetta. Ég þarf eiginlega að fara með einhverjar möntrur og eiga stund með sjálfum mér fyrir boðið og segja sjálfum mér að slaka á," segir Oddur kíminn.

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .