*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Erlent 8. febrúar 2020 19:05

Duttu í lukkupottinn með Jókernum

Fjárfestar sem fjármögnuðu The Joker vegna efasemda Warner Bros um myndinni fá fé sitt margfalt til baka.

Ritstjórn
Hildur Guðnadóttir vann Golden Globe verðlaunin fyrir tónlistina í The Joker. Fleiri gera það gott vegna myndarinnar.
epa

Óskarsverðlaunin verða afhent aðfaranótt mánudags og þykir Hildur Guðnadóttir líklegust til að hreppa hnossið fyrir tónlistina í myndinni. The Joker er tilnefnd til ellefu verðlauna. Hildur er hins vegar ekki ein um að gera það gott eftir útkomu kvikmyndarinnar erum Jókerinn. Fjárfestar myndarinnar fá fé sitt nefnilega margfalt til baka. 

Framleiðslukostnaður myndarinnar var 55 milljónir dollara, eða 7 milljarðar króna en miðasölutekjur af myndinni eru sem stendur tuttugufalt hærri. Þær hafa numið 1,1 milljarði dala, eða um 140 milljörðum króna. FT segir sérfræðinga á markaðnum hafa búist við að myndin gæti þénað 100 milljónir dollara, eða um 10% af því sem raunin varð.

Sjá einnig: Hildur þykir langlíklegust

Todd Phillips, leikstjóri myndarinnar þurfti að leggja mikið púður í að sannfæra kvikmyndaverið Warner Bros að framleiða myndina, sem lengi var mjög efins um útfærslu hans á persónu Jókersins. Phillips, hafði áður getið af sér gott orð fyrir leikstjórn Hangover myndaflokksins og Old School. Í Jókernum vildi hann sýna sálarangist fjöldamorðingja sem væri mjög veikur á geði. Warner Bros höfðu áhyggjur af þessari nálgun. Phillips segist m.a. fengið þau svarið: „Þú veist að við erum að selja Joker náttföt,“ frá kvikmyndaverinu.

Vegna efasemda um ágæti myndarinnar fékk Warner Bros tvö félög, Creative Wealth Media og Village Roadshow til að leggja hvort um sig fram 20% af framleiðslukostnaðar myndarinnar og þar með 20% af mögulegum ágóða. Kvikmyndaverið nagar sig eflaust í handabakið að hafa ekki fjármagnað myndina að fullu.

Að finna kvikmynd í heystakki

Creative Wealth Media er stýrt af Jason Cloth, gömlum bankamanni, sem endaði í skemmtanabransanum eftir að hafa lánað tónlistarmanninum The Weeknd fé. Félagið er að mestu fjármagnað af lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestingarsjóðum. 

Cloth segir í samtali við FT að um 50 þúsund myndir séu framleiddar á ári hverju. Af þeim endi um 800 í kvikmyndahúsum en ekki sé hægt að hafa nokkuð að ráði upp úr nema úr 200 kvikmyndum. Listin felist í að finna þessar 200 kvikmyndir.

Hitt félagið, Village Roadshow, er í eigu fjárfestingafélagsins Vine Alternative Investments, sem hefur fjármagnað fjölmargar myndir Warner Bros. Þá hefur félagið sérhæft sig í að kaupa gamla sjónvarpsþætti og kvikmyndir þar sem eftirspurn eftir þeim sveiflist lítið með hagsveiflunni.